Erlent

Funduðu um Sýrland

Hillary Clinton hélt líka erindi í háskólanum í Dublin á Írlandi í gær.
Hillary Clinton hélt líka erindi í háskólanum í Dublin á Írlandi í gær. fréttablaðið/ap
Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, hittust á Írlandi í gær og ræddu ástandið í Sýrlandi ásamt Lakhtar Brahimi, friðarerindreka Sameinuðu þjóðanna og Arababandalagsins gagnvart Sýrlandi.

Rússar og Bandaríkjamenn hafa til þessa verið á öndverðum meiði gagnvart Sýrlandi. Bandaríkjamenn hafa gagnrýnt Rússa fyrir að standa í vegi fyrir að Sameinuðu þjóðirnar gætu komið uppreisnarmönnum og almenningi í Sýrlandi með einhverjum hætti til aðstoðar, en Rússar segja Bandaríkjamenn á móti reyna að hlutast til um innanríkismál Sýrlendinga.

Harðir bardagar geisa nú í Damaskus, höfuðborg Sýrlands. Uppreisnarmenn hafa náð æ fleiri hverfum á sitt vald og sækja hart að miðborginni.

Stjórnarhernum tókst seint í sumar að hrekja uppreisnarmenn frá borginni fljótlega eftir að þeir höfðu náð henni að mestu á sitt vald.

Styrkur uppreisnarmanna er hins vegar orðinn miklu meiri nú en þá, enda hafa þeir náð á sitt vald æ fleiri vopnum og herbúnaði frá stjórnarhernum, sem að sama skapi er orðinn veikari fyrir.

Þá hafa uppreisnarmenn náð á sitt vald æ stærri svæðum annars staðar í landinu, einkum í austurhlutanum.

Faisal Miqdad, aðstoðarutanríkisráðherra Sýrlands, vísaði algerlega á bug í gær vangaveltum í fjölmiðlum um að Bashar al Assad forseti væri að skipuleggja flótta sinn frá landinu. „Þetta er fyndið, hlægilegt. Ég fullvissa ykkur hundrað prósent um að Assad forseti mun aldrei yfirgefa þetta land,“ var haft eftir honum í fréttum frá Reuters.

Þá er einnig óttast að Assad muni láta beita efnavopnum gegn uppreisnarmönnum og almenningi í landinu, en ekki hefur þó verið staðfest hvort stjórnvöld búa yfir slíkum vopnum.

Breska stjórnin undirbýr nú breytingu á vopnasölubanni til Sýrlands, sem myndi gera Bretum kleift að útvega uppreisnarmönnum vopn.

Þá er bandaríska flugmóðurskipið Eisenhower komið að ströndum Sýrlands þar sem það bíður átekta, en skipið er komið verulega til ára sinna og var á leið til viðgerða í Bandaríkjunum. - gb / þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×