Innlent

Bæjarstjóri lætur fjarlægja slysagildru

Húsið hefur grotnað niður síðan Bryndísarsjoppan var og hét en starfseminni var hætt árið 2008.
Húsið hefur grotnað niður síðan Bryndísarsjoppan var og hét en starfseminni var hætt árið 2008. Fréttablaðið Ernir
Húsið þar sem Bryndísarsjoppa var starfrækt til ársins 2008 stendur yfirgefið við Hringbraut 16 í Hafnarfirði. Mikill sóðaskapur er á lóðinni þar sem sjoppan stóð og húsið sjálft er í niðurníðslu og útkrotað.

Íbúar við Hringbraut eru orðnir langþreyttir á óreiðunni á lóð sjoppunnar og hafa bent á að útidyrnar þar séu ekki læstar og mikið rusl og drasl sé inni sem beinlínis getur verið slysagildra fyrir börn og ungmenni sem stíga inn fyrir. Þá hafa krakkar gert það að leik sínum að brjóta tréplötur sem byrgja glugga hússins.

Hafnarfjarðarbær keypti lóðina og húsið fyrir nokkrum árum. Húsið hefur nú verið selt og sótt hefur verið um leyfi fyrir flutningum á því. Nýr eigandi mun greiða allan kostnað við flutningana.

„Það var kveðið á um að húsið skyldi farið 25. júní en það er verið að bíða eftir þinglýsingu afsals,“ segir Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði. „Það er ekki hægt að flytja húsið fyrr en búið er að þinglýsa. Húsið er því á leiðinni í burtu, það er búið að samþykkja flutning á því og búið að sækja um leyfi lögreglu.“

Spurð hversu lengi íbúar í nágrenni gömlu sjoppunnar megi bíða eftir flutningunum segir hún það aðeins dagaspursmál.

Guðrún segir að til standi að fara í gatnaframkvæmdir á horni Hringbrautar og Selvogsgötu þar sem umrætt hús stendur. „Það á að laga gatnamótin og auðvelda aðgengi að Flensborgarskólanum. Í gömlu skipulagi var gert ráð fyrir hringtorgi en ekki var pláss fyrir það því húsið er á þessum stað.“- bþh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×