Erlent

Háhyrningar höfða mál gegn sædýrasafni

Hvalir Háhyrningurinn Tilikum sýnir listir sínar í sædýrasafni Seaworld.
Hvalir Háhyrningurinn Tilikum sýnir listir sínar í sædýrasafni Seaworld.
Alríkisdómari í Bandaríkjunum hafnaði því á mánudag að vísa frá máli sem gæti skorið úr um hvort dýr njóti sömu verndar gegn þrælahaldi og menn. Dýraverndarsamtökin PETA hafa höfðað málið fyrir hönd fimm háhyrninga.

Í stefnu PETA segir að farið sé með háhyrningana eins og þræla í sædýrasöfnum Seaworld. Þeir séu neyddir til að skemmta gestum og búa í glerbúrum.

Theodore Shaw, lögmaður Seaworld, krafðist þess að málinu yrði umsvifalaust vísað frá dómi, en hafði ekki erindi sem erfiði. Hann sagði dómsmálið sóun á bæði tíma og peningum.

PETA vísar til ákvæða í stjórnarskrá Bandaríkjanna, sem leggur blátt bann við þrælahaldi. Þessu mótmælir Shaw og bendir á að stjórnarskráin nái aðeins yfir réttindi manna. Þar sé raunar ekkert fjallað um mannréttindi dýra, hvorki smáhvela né annarra. Slík réttindi gætu að auki haft áhrif víðar, til dæmis mætti líta til lögregluhunda, eldiskjúklinga og annarra dýra.

Dómarinn ákvað að vísa málinu ekki strax frá, heldur tekur sér umhugsunarfrest til að íhuga næstu skref þessa óvenjulega dómsmáls.

Óvíst er hvort háhyrningarnir Tilikum, Katina, Kasatka, Corky og Ulises bíða spenntir eftir niðurstöðunni, þó að málið sé höfðað í þeirra nafni. - bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×