Erlent

„Það er tómarúm í lífi okkar“

Boði Logason skrifar
Börn hjúkrunarfræðingsins sem svipti sig lífi eftir að ástralskir útvarpsmenn gerðu símahrekk í henni, segja að móðir sín hafi skilið eftir tómarúm í lífi sínu sem erfitt sé að fylla.

Hin fjörutíu og sex ára gamla Jacintha Saldanha tók við símtali frá útvarpsmönnunum sem sögðust vera Elísabet Bretlandsdrottning og Karl Bretaprins. Tilgangur þeirra var að athuga hvernig Katrín Middleton, eiginkona Vilhjálms Prins, hefði það á spítalanum en þar dvaldi hún vegna morgunógleði.

Þremur dögum eftir hrekkinn fannst Saldanha látin á spítalanum en talið er að hún hafi svipt sig lífi.

Minningarathöfn var haldin í bænum Bristol í Englandi í gærkvöldi þar sem börn hennar, fjórtán og sextán ára, minntust móður sinnar. Presturinn talaði fyrir þeirra hönd:

„Húsið er tómt, heimili án nærveru þinnar. Við erum niðurbrotin og það er ófyllanlegt tóm í lífi okkar. Við elskum þig, mamma. Sofðu í friði."

Eiginmaður hennar hélt svo stutta tölu fyrir fjölmiðla í morgun fyrir framan Westminister dómkirkjuna í Lundúnum.

„Þessi missir er mjög sársaukafullur. Enginn getur tekið stöðu þína í lífi mínu. Ég elska þig og sakna þín að eilífu," sagði Ben Barboza, eiginmaður Jacinthu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×