Erlent

Lofa að þýða ekki með Google

Maðurinn var í hópi átta Kúrda sem eru taldir hafa komið peningum til verkamannaflokks Kúrdistans.
Maðurinn var í hópi átta Kúrda sem eru taldir hafa komið peningum til verkamannaflokks Kúrdistans. nordicphotos/afp
Lögreglan í Kaupmannahöfn hefur viðurkennt að það voru mistök að nota þýðingarforrit Google, Google Translate, við hryðjuverkarannsókn. Þá hefur því verið lofað að forritið verði ekki notað framar.

Lögreglan handók átta Kúrda í september, en þeir voru allir sakaðir um að fjármagna hryðjuverk með því að safna 140 milljónum danskra króna fyrir hönd verkamannaflokks Kúrdistans, sem Evrópusambandið flokkar sem hryðjuverkasamtök.

Einn mannanna var sakaður um þetta meðal annars á grundvelli sms-skilaboða í síma hans, en þau voru þýdd með hjálp þýðingarforritsins. Maðurinn er sagður hafa fengið taugaáfall í kjölfar yfirheyrslu lögreglu. Lögreglan segir þó að skilaboðin sem um ræðir hafi ekki verið notuð til að halda honum í varðhaldi.

„Í yfirheyrslunum notaði rannsakandi Google-þýdda útgáfu af innihaldi skilaboðanna og hann hefði ekki átt að gera það,“ sagði Svend Foldager rannsóknarlögreglumaður við Politiken. „Það er ekki margt hægt að segja annað en að þetta voru mistök. Ég veit bara um þetta eina tilvik og hef aldrei heyrt um að þetta hafi gerst áður.“ - þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×