Erlent

Heimsendir Maya: Hollendingurinn og örkin

Pieter Frank van der Meer
Pieter Frank van der Meer MYND/AFP
Hollendingurinn Pieter Frank van der Meer er sannfærður um að ragnarök séu á næsta leiti. Því hefur hann boðið fjölskyldu sinni og 50 ættingjum að leita skjóls í nýstárlegri örk sem hann hefur komið fyrir í garðinum sínum.

Meer, sem er strangtrúaður, telur að morgundagurinn, 21. desember, sé upphaf stórkostlegra breytinga fyrir gjörvallt mannkyn.

„Pláneturnar verða í beinni röð á morgun," segir Meer. „Það er einstakt. Á þessum tiltekna degi mun mikil orka losna úr læðingi. Sólgos mun orsaka mikil flóð hér á jörðu niðri."

Örkin hans Meer er í raun stærðarinnar björgunarbátur. Þar má finna helstu nauðsynjar, mat og vatn. Meer sagði fjölmiðlum í Hollandi í dag að hann hafi orðið fyrir aðkasti frá nágrönnum sínum eftir að upp komst um ráðstafanir hans.

„Það gætu liðið tíu ár en ritningin segir að drottinn komi eins og þjófur að nóttu. Við verðum að vera viðbúin."

Hugleiðingar um meintan heimsendi þann 21. desember árið 2012 eiga rætur að rekja til dagatals Maya en það rennur út á þessum degi. Vísindamenn, sagnfræðingar og aðrir sérfræðingar hafa ítrekað bent á að engar líkur séu á að heimsendir sé í vændum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×