Erlent

Telja að H.C. Andersen hafi ekki skrifað nýfundna ævintýrasögu

Sérfræðingar í skrifum danska skáldsins H.C. Andersen eru langt í frá sammála um að nýfundin saga sem eignuð er honum sé ekta eða ekki.

Það vakti heimsathygli fyrr í mánuðinum þegar greint var frá því að fundist hefði ævintýrasagan Tólgarkertið eða Tællelyset og að um væri að ræða fyrstu ævintýrasöguna sem H.C. Andersen skrifaði. Sennilega væri sagan skrifuð á námsárum skáldsins eða þegar hann var 17 til 19 ára gamall á árunum 1822 til 1826.

Í frétt um málið í Ekstra Bladet segir að málfarssérfræðingar séu síður en svo sammála um að þessi saga sé eftir H.C. Andersen og hluti þeirra telur að um eftirlíkingu af verkum skáldsins sé að ræða en slíkar eftirlíkingar var að finna á mörgum dönskum heimilum meðan að H.C. Andersen lifði.

Prófessorinn Jörn Lund hefur rannsakað málfar H.C. Andersen og gaf út bók um rannsóknir sínar árið 1991. Hann telur að sagan Tólgarkertið sé ekki skrifuð af skáldinu.

Lund nefnir sem dæmi að orðið formfuldendt komi fyrir í merkingunni gallalaus. Þetta orð varð ekki almennt í dönsku fyrr en eftir miðja 19. öldina. Það hafi raunar ekki komið fram fyrr en í sögunni Barónessan eftir H.C. Andersen árið 1848 eða 30 árum eftir að skáldið átti að hafa skrifað Tólgarkertið

Þá bendir Lund einnig á stafsetningarvillu í Tólgarkertinu sem hann stórefast um að H.C. Andersen hafi gert sig sekan um.

Í Ekstra Bladet kemur fram að aðrir séu sammála Lund um að sagan sé ekki eftir H.C.Andersen og að rannsaka þurfi málið betur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×