Erlent

Segir afsögn Monti vera til að hindra endurkomu Berlusconi

Afsögn Mario Monti sem forsætisráðherra Ítalíu hefur mælst illa fyrir allsstaðar í Evrópu. Tímaritið The Economist gefur í skyn að afsögnin hafi verið m.a. til að skera undan frekari framavonum Silvio Berlusconi í ítölskum stjórnmálum.

Það er Charlemagne einn af föstum dálkahöfundum Economist sem fjallar um málið. Hann segir að Berlusconi hafi horft fram á þriggja mánaða tímabil þar sem flokkur hans, Frelsisflokkurinn, gæti haldið núverandi starfsstjórn Ítalíu gangandi með hlutleysi en ekki stuðningi. Á meðan gæti Berlusconi sjálfur skipulagt eigin kosningabaráttu og sameinað fyrri kjósendur flokksins undir sinn hatt en flokkurinn hefur misst um helming fylgis síns á síðustu mánuðum samkvæmt skoðanakönnunum.

Afsögn Mario Monti hefur hinsvegað valdið því að Berlusconi þurfti strax um helgina að tilkynna formlega um endurkomu sína í ítölsk stjórnmál. Og vegna ákvörðunar Monti eru allar líkur á að kosningarnar verði strax í febrúar en ekki næsta vor eins og áformað var. Þar sem jól og nýtt ár eru framundan hefur Monti verulega dregið úr möguleikum Berlusconi á því að eiga endurkvæmt í stjórnmálalíf Ítalíu.

Sem fyrr segir hefur afsögn Mario Monti mælst illa fyrir. Hlutabréf í kauphöllinni í Mílanó voru í frjálsu falli daginn eftir, skuldatryggingaálag landsins hefur rokið upp og ávöxtunarkrafan á ítölsk skuldabréf til tíu ára hefur hækkað töluvert.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×