Erlent

Eyðni kom krabbameinssjúkri stúlku til bjargar

Krabbamein og eyðni eru á meðal verstu áfalla sem mannslíkaminn getur orðið fyrir. Ný, byltingarkennd krabbameinsmeðferð stefnir nú þessum hræðilegu sjúkdómum gegn hvor öðrum og hin sjö ára gamla Emma Whitehead er lifandi sönnun þess að gott getur sannarlega sprottið frá illu.

Emma, sem er frá Philipsburg í Bandaríkjunum, þjáðist af ólæknandi afbrigði af hvítblæði. Geislameðferð hafði ekki borið árangur og því neyddust læknar og foreldrar Emmu að grípa til örþrifaráða. Það er þeim að þakka að sjúkdómur Emmu er nú í rénun.

Meðferðin fólst í því að fjarlægja milljónir T-fruma (eða T-eitilfrumur) úr líkama Emmu. Þessar frumur, sem myndast í beinmerg, gegna lykilhlutverki í ónæmiskerfinu. Læknar breyttu síðan genum þeirra og var hluta þeirra skipt úr fyrir erfðavísa sem sýktir voru af breyttri útgáfu HIV. Því næst var T-frumunum dælt inn í blóðrás Emmu og um leið réðust þær á krabbameinsfrumurnar.

Þetta var þó erfið barátta og var Emma við dauðans dyr á meðan sjúkdómarnir tveir tókust á. En hún bar árangur og Emma er nú á batavegi.

Emma er fyrsta barnið til að gangast undir þessa meðferð. Áður höfðu tveir aðrir sjúklingar háð svipaða baráttu með hjálp eyðniveirunnar og báru meðferðir þeirra ágætan árangur.

Læknar vonast til að þessi meðferð muni bylta krabbameinslækningum og eru þeir vongóðir um að hún muni bjarga lífi þúsunda krabbameinssjúklinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×