Erlent

Forsætisráðherra Cayman eyja handtekinn vegna spillingar

Forsætisráðherra Cayman eyja hefur verið handtekinn, sakaður um spillingu og þjófnað í störfum sínum.

Forsætisráðherrann McKeeva Bush er sakaður um að hafa misnotað völd sín í embætti og að hafa flutt inn sprengiefni án tilskilinna leyfa. Það var Konunglega lögreglan á Cayman eyjum sem handtók ráðherrann í gærdag.

Á vefsíðu lögreglunnar kemur fram að handtaka hans sé gerð vegna rannsókna á nokkrum málum. Þar er getið um þjófnað í gegnum greiðslukort í eigu hins opinbera og sprengjuefnið, auk brota á lögum um spillingu á eyjunum.

Cayman eyjar eru breskt yfirráðasvæði og útnefnir Elísabet Bretadrottning ríkisstjóra þeirra í hvert sinn. Hinsvegar eru eyjarnar með sjálfstjórn, eigið þing og ríkisstjórn.

Í frétt um málið á vefsíðu BBC segir að flokkur Bush, Sameinaði lýðræðisflokkurinn hafi verið við völd frá árinu 2009. Fyrir utan að vera forsætisráðherra er Bush einnig, fjármála- og ferðamálaráðherra eyjanna.

Cayman eyjar eru einkum þekktar fyrir að vera aflandseyjar og skattaskjól yfir efnaða einstaklinga um allan heim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×