Erlent

Barack Obama er maður ársins

MYND/AP
Barack Obama, Bandaríkjaforseti, er maður ársins að mati bandaríska tímaritsins Time. Þetta tilkynnti Rick Stengel, ritstjóri Time, í sjónvarpsþættinum Today fyrr í dag.

Stengel sagði að endurkjör Obama í embætti forseta fyrr á þessu ári hefði skipt sköpum í vali á manneskju ársins. Sigur Obama beri vitni um þær lýðfræðilegu breytingar sem Bandaríkin gangi nú í gegnum.

Þetta er í annað sinn sem Time velur Obama mann ársins, síðast var það árið 2008.

Stengel benti á að Obama væri fyrsti forseti Bandaríkjanna sem fær yfir 50 prósent atkvæða í tvennum kosningum í röð. Þá sé endurkjör Obama einni merkilegt fyrir þær sakir að hann hlaut endurkjör þegar atvinnuleysi í Bandaríkjunum mældist 7.5 prósent.

Valið stóð á milli Obama og pakistönsku stúlkunnar Malala Yousufzai sem barist hefur fyrir menntun stúlkna í heimalandi sínu. Hún var skotin í höfuðið er hún hélt heim á leið úr skóla í austanverðu Pakistan í október síðastliðnum. Malala lifði árásina og er nú í endurhæfingu í Bretlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×