Erlent

Höfundur Brasilíu látinn

Brasilía, helsta sköpunarverk Niemeyers.
Brasilía, helsta sköpunarverk Niemeyers. MYND/AP
Brasilíumaðurinn Oscar Niemeyer, einn áhrifamesti arkitekt veraldar, lést í gær, næstum 105 ára að aldri.

Auðvelt er að bera kennsl á fagurfræðilegar áherslur Niemeyers en verk hans einkennast af aflíðandi formum sem sveigjast upp til að mynda svimandi háar byggingar, oft á tíðum þaktar gleri. Þessum áhrifum náði Niemeyer með notkun á járnbentri steinsteypu og var hann á meðal fyrstu manna til að nýta sér þessa steinsteyptegund.

Oscar Niemeyer.MYND/AP
Á meðal helstu verka Niemeyers eru höfuðstöðvar Sameinuðu Þjóðanna í New York en bygginguna hannaði hann ásamt svissneska arkitektinum og listamanninum Le Corbusier. Þá má einnig benda á höfuðstöðvar kommúnistaflokksins í París og Markísuna í Casa do Baile í suðausturhluta Brasilíu.

En hans helstu verk, og þau sem tryggðu honum heimsfrægð, eru byggingarnar sem hannaði fyrir nýja höfuðborg Brasilíu. Höfuðborg landsins, sem einfaldlega heitir Brasilía var byggð frá grunni á tuttugustu öld.

Borgarstæðið sem valið var fyrir nýju höfuðborgina liggur á hárri sléttu sem nefnist Planalto Central í miðvesturhluta landsins. Skipulagsfræðingurinn Lúcio Costa vann sam­keppni um hönnun borg­ar­innar, sem 5550 manns tóku þátt í, og valdi hann Niemeyer sem aðal­arki­tekt.

MYND/AP
Þannig áttu félagarnir eftir að skrá sig á spjöld sögunnar í sögu borgarskipulags og arkítektúrs enda var þetta eitt stærsta verkefni síðustu aldar.

Borgin var hönnuð í módernískum stíl. Stjórnarbyggingarnar, þingið, forsetaskrifstofurnar, forsetabústaðurinn og landsbókasafnið voru allt sköpunarverk Niemeyers og þykja byggingarnar með merkustu gimsteinum arkitektúrs á 20. öldinni.

Alls tók 41 mánuði, eða frá 1956 til 1960 að byggja Brasilíu.

Hægt er að lesa ítarlega um Oscar Niemeyer og vefsvæði Lemúrsins en þar má einnig finna ljósmyndir af verkum hans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×