Erlent

Fann móður sína eftir 47 ár

Francisco Franco.
Francisco Franco. MYND/WIKIMEDIA
Tæplega fimmtugur kráareigandi í Huleva á suðurströnd Spánar, Quieuq Olivert, hefur loks haft uppi á móður sinni eftir 47 ára aðskilnað.

Olivert var tekinn frá foreldrum sínum 1965 en það var gert samkvæmt tilskipun frá ríkisstjórn Francisco Francos. Fjölmörg börn voru fjarlægð af heimilum sínum á þessum tíma og var það gert á bæði siðferðis- eða hugmyndafræðilegum grundvelli. Í tilfelli Oliverts voru það kaþólskar nunnur sem bönkuðu upp á hjá foreldrum hans, sem ekki voru gift, og tóku hann.

Olivert komst að hinu sanna þegar fósturforeldrar hans létust. Eftir að hafa rannsakað fæðingarvottorð sitt fann hann líffræðilega móður sína og heimsótti hana stuttu seinna.

„Móðir mín brotnaði niður þegar hún sá mig," sagði Olivert í samtali við fréttaveituna AFP. „Hún sagðist aldrei hafa yfirgefið mig. Ég var rifinn úr faðmi hennar og hún vissi aldrei hvort að ég var lífs eða liðinn."

Þúsundir barna hlutu sömu örlög og Olivert. Síðustu ár hafa samtökin SOS Bebes Robados unnið að því að sameina „Börn Francos" og sanna foreldra þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×