Erlent

Ákærður fyrir að hafa ýtt manni fyrir lest

Forsíða New York Post á þriðjudaginn.
Forsíða New York Post á þriðjudaginn. MYND/NEW YORK POST
Yfirvöld í New York hafa ákært heimilislausan mann, Naeem Davis, fyrir að hafa orðið tæplega sextugum manni að bana með því að hrinda honum fyrir lest á mánudag.

Fórnarlambið, Ki-Suck Han, var á brautarpallinum ásamt dóttur sinni þegar til orðaskaks kom milli hans og Davis. Rifrildið endaði með því að Davis ýtti Han út á brautarteinana.

Málið hefur vakið mikla athygli í Bandaríkjunum, ekki síst fyrir þær sakir að nokkrir vegfarendur fylgdust með atburðarrásinni og gerðu ekkert til að bjarga Han frá lestinni. Nokkrir mynduðu atvikið með snjallsímum.

Einna helst er það þó umfjöllun bandaríska fréttablaðsins New York Post sem hefur farið fyrir brjóstið á mörgum. Ljósmyndari blaðsins var á brautarpallinum þegar lestin kom æðandi í áttina að Han og náði hann dramatískum ljósmyndum af því þegar Han rétti út hendurnar í örvæntingu, augnabliki áður en lestin skall á honum.

Naeem Davis.MYND/AP
„Hann réðst á mig. Hann reif í mig," sagði Davis við fjölmiðlafólk í gær þegar hann var dreginn fyrir dóm. Einn fréttamaður spurði hvort að hann bæri ábyrgð á dauða mannsins, Davis svaraði því neitandi.

Eins og áður segir var tvítug dóttir Hans, Ashley, með föður sínum á brautarpallinum þegar atvikið átti sér stað. Hún ræddi við fjölmiðla í dag. Aðspurð hvort að vegfarendur á brautarpallinum hefðu mögulega getað bjargað lífi Hans sagði hún: „Þetta er búið og gert."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×