Erlent

Þungun Katrínar leiðir til breytinga á stjórnarskrá Bretlands

Öll þjóðþing innan breska samveldisins eru nú að vinna að breytingum á löggjöf sinni vegna þess að Katrín Middleton hertogaynjan af Cambridge er ólétt.

Í nær öllum tilvikum í löndum breska samveldisins er um einfalda lagabreytingu að ræða í þá átt að fyrsta barn bresku konungshjónanna erfi krúnuna hvort sem um strák eða stúlku er að ræða.

Í Bretlandi hinsvegar þýðir þetta að gera þarf lykilbreytingar á stjórnarskrá, eða stjórnskipun, landsins, það er breyta ákvæðum sem sett voru fyrir nokkrum öldum og eru í fullu gildi í dag. Þar er meðal annars um að ræða breytingu á réttindalögunum, eða Bill of Rights, og krýningareiðnum sem sett voru árið 1688 og lögum um sameiningu Skotlands og Englands sem sett voru árið 1707.

Að Elísabet Bretadrottning sé í stöðu sinni í dag skýrist af því að foreldrar hennar eignuðust ekki son. Nú er unnið að því að breyta erfðaröðinni sem kveður á um að fyrsti sonurinn sé ávallt erfinginn.

Hugsanlega hafa þrálátar vangaveltur um að hertogaynjan af Cambridge gangi með tvíbura haft eitthvað að segja um þessar lagabreytingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×