Enski boltinn

Wenger: Enska úrvalsdeildin er enn sú sterkasta

Arsene Wenger.
Arsene Wenger. Nordic Photos / Getty Images
Arsene Wenger, knattspyrnustjóri enska knattspyrnuliðsins Arsenal, segir að enska úrvalsdeildin sé enn sú sterkasta í Evrópu. Arsenal hefur tryggt sér sæti í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu ásamt Manchester United, en Evrópumeistaralið Chelsea og Englandsmeistaralið Manchester City komust ekki áfram. Öll liðin frá Spáni og Þýskalandi eru komin áfram í Meistaradeildinni og Wenger viðurkennir að þær deildir séu í framför.

„Ég er á þeirri skoðun að enska úrvalsdeildin sé sú sterkasta. Ef enskt lið vill fá leikmann þá fá þeir yfirleitt leikmanninn. Á meðan staðan er þannig þá verður enska úrvalsdeildin sú sterkasta í Evrópu. Enska úrvalsdeildin er meira en það sem sést á vellinum, leikmenn sem ég hef rætt við eru einnig á þeirri skoðun," segir Wenger en Arsenal hefur komist upp úr riðlakeppninni í Meistaradeildinni í 13 ár í röð en aðeins Real Madrid er með betri árangur – alls 16 sinnum í röð.

„Munurinn er að minnka, þýsku liðin eru áberandi núna, spænsku liðin eru alltaf til staðar og frönsk lið eru einnig á uppleið. Manchester City lenti í mjög erfiðum riðli en þeir eru á toppi ensku úrvalsdeildarinnar og eru því með gott lið," bætti Wenger við en næsti leikur Arsenal er gegn Aston Villa en leikurinn fer fram í Birmingham á morgun, laugardag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×