Enski boltinn

Sir Alex Ferguson: Benitez er mjög heppinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rafael Benitez og Sir Alex Ferguson.
Rafael Benitez og Sir Alex Ferguson. Mynd/Nordic Photos/Getty
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, segir að Rafael Benitez geti verið lukkulegur með stöðu mála þegar hann sest í stjórastólinn hjá Chelsea. Benitez vann Heimsmeistarakeppni félagsliða skömmu eftir að hann tók við Internazionale af Jose Mourinho og getur nú endurtekið leikinn með Chelsea í næsta mánuði.

„Rafael Benitez er mjög heppinn. Hann gæti verið með tvo Heimsmeistaratitla félagsliða á ferilskránni eftir tvær vikur og það þótt að hafa ekkert átt neinn þátt í undirbúningi liðanna" sagði Sir Alex Ferguson.

„Það finna allir til með Roberto Di Matteo og með réttu. Það er magnað að vinna enska bikarinn og Meistaradeildina og fá síðan sparkið," sagði Ferguson.

Rafael Benitez var ekki besti vinur Ferguson í boltanum þegar þeir stjórnuðu erkifjendunum Liverpool og Manchester United á árunum 2004 til 2010. Það má búast við að þeir taki upp þráðinn nú enda lið þeirra í harðri keppni um alla titla á þessu tímabili.

Síðasta verk Benitez sem stjóra var að stýra Internazionale til sigurs í Heimsmeistarakeppni félagsliða í desember 2010 og starfið hjá Chelsea er það fyrsta sem hann fær síðan þá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×