Enski boltinn

Hughes rekinn frá QPR - Redknapp að taka við

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mark Hughes.
Mark Hughes. Mynd/Nordic Photos/Getty
Mark Hughes hefur verið rekinn sem stjóri enska úrvaldsdeildarliðsins Queens Park Rangers og er þar með annar stjórinn á tveimur dögum sem þarf að taka pokann sinn í úrvalsdeildinni því Roberto Di Matteo var rekinn frá Chelsea á miðvikudagsmorguninn.

Queens Park Rangers er í neðsta sæti í ensku úrvalsdeildinni og eina liðið af þeim 92 sem spila í ensku deildarkeppninni sem hafa ekki unnið leik.

Þessi ákvörðun kemur aðeins degi fyrir leik liðsins á móti Manchester United á Old Trafford en þeir Mark Bowen og Eddie Niedzwiecki munu stjórna liðinu á morgun.

Daily Mail hefur heimildir fyrir því að Harry Redknapp muni taka við liðinu eftir helgina. Redknapp mun vera í stúkunni á Old Trafford og fær síðan það erfiða verkefni að reyna að bjarga liðinu frá falli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×