Íslenski boltinn

Hlynur Atli á sölulista hjá Fram | Á ekki samleið með Þorvaldi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Stefán
Stjórn knattspyrnudeildar Fram hefur sent frá sér tilkynningu þar sem fram kemur að Hlynur Atli Magnússon hafi verið settur á sölulista.

Hlynur Atli hefur tilkynnt forráðamönnum Fram að hann hafi ekki áhuga á að spila með félaginu og að hann vilji komast annað.

„Stjórn deildarinnar sér því þann kost vænstan að auglýsa Hlyn Atla til sölu þar sem hann er samningsbundinn leikmaður hjá félaginu," segir enn fremur í tilkynningunni.

Hlynur Atli spilaði sinn fyrsta leik með Fram árið 2009 og á alls að baki 60 leiki í deild og bikar. Hann hefur skorað í þeim tvö mörk en Hlynur er 22 ára gamall.

Uppfært 13.00: Hlynur Atli hefur sent frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:

„Ég, Hlynur Atli Magnússon, vil koma eftirfarandi á framfæri svo að yfirlýsing knattspyrnudeildar Fram frá því í morgun verði ekki túlkuð á rangan hátt.

Sem uppalinn Framari, hef ég alla mína tíð notið þess að spila fyrir félagið og fæ vonandi tækifæri til þess aftur í framtíðinni, en því miður hef ég og þjálfari liðsins, Þorvaldur Örlygsson, ekki átt samleið og sé ég ekkert annað í stöðunni en að færa mig um set.

Ég óska Fram góðs gengis í framtíðinni.

Hlynur Atli Magnússon"




Fleiri fréttir

Sjá meira


×