Enski boltinn

Rodgers kvartar yfir þunnum hóp hjá Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jonjo Shelvey; Steven Gerrard og Luis Suarez.
Jonjo Shelvey; Steven Gerrard og Luis Suarez. Mynd/Nordic Photos/Getty
Brendan Rodgers, stjóri Liverpool, sá sína menn tapa í fjórða sinn á Anfield í vetur þegar liðið datt út úr enska deildarbikarnum í gær eftir 1-3 tap á móti hans gömlu lærisveinum í Swansea.

Swansea komst í 1-0 en Brendan Rodgers skipti þá þeim Steven Gerrard, Luis Suarez og Raheem Sterling inn á völlinn. Það dugði ekki til því Swansea vann leikinn 3-1.

„Við erum með mjög, mjög lítinn hóp og leikmannhópurinn er afar þunnur," sagði Brendan Rodgers eftir leikinn.

„Ég hef verið að nota marga leikmenn í þessum þremur keppnum, skoðað unga leikmenn og gefið jaðarmönnum tækifæri. Þessi leikur sýndi mér hvar við stöndum," sagði Rodgers.

„Ég hef gefið mönnum tækifæri og það er það besta sem ég get gert sem þjálfari og stjóri. Það er ekki vandamál fyrir mig en það sem hefur komið í ljós er að hópurinn er þynnri en ég hélt," sagði Rodgers.

„Ég get ekki alltaf notað Steven Gerrard og Luis Suarez er okkar eini framherji. Svona er bara staðan hjá félaginu," sagði Rodgers.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×