Enski boltinn

Villas-Boas vonast til að Dembele sleppi við aðgerð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mousa Dembele fagnar marki með Tottenham.
Mousa Dembele fagnar marki með Tottenham. Mynd/AFP
Mousa Dembele, liðsfélagi Gylfa Þórs Sigurðssonar og einn af samkeppnisaðilum íslenska miðjumannsins um sæti á miðju Tottenham-liðsins, hefur misst af síðustu fjórum leikjum vegna meiðsla og verður ekki með liðinu um helgina. Andre Villas-Boas, stjóri Tottenham, er að vonast til að leikmaðurinn þurfi ekki að fara í aðgerð.

Dembele meiddist í landsleik með Belgum á móti Skotlandi á dögunum en hann hefur verið að glíma við mjaðmarmeiðsli frá því að hann var í herbúðum Fulham.

„Við viljum reyna að forðast aðgerð en hann þarf að fara undir hnífinn þá verður hann frá í einn til einn og hálfan mánuð," sagði Andre Villas-Boas.

„Vonandi kemur ekki til þess því við höfum fengið jákvæðar ábendingar um að Dembele geti orðið leikfær eftir eina til tvær vikur," sagði Villas-Boas.

Emmanuel Adebayor er búinn að ná sér af magakveisunni og gæti spilað á móti Wigan á morgun en það óvíst hvort miðjumaðurinn Jake Livermore verði með. Scott Parker, Benoit Assou-Ekotto og Younes Kaboul eru allir frá vegna meiðsla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×