Enski boltinn

Silvestre: Van Persie sýndi hugrekki með að fara til Man Utd

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Robin van Persie.
Robin van Persie. Mynd/Nordic Photos/Getty
Mikael Silvestre, fyrrum leikmaður Manchester United og Arsenal, hefur hrósað Robin van Persie fyrir að fara frá Arsenal til Manchester United en framundan er fyrsti leikur Van Persie á móti gömlu félögunum.

„Þú þarft að vera hugrakkur til þess að fara á milli þessara liða og Robin tók þessa ákvörðun," sagði Mikael Silvestre við BBC en Frakkinn lék 326 leiki fyrir United og 38 leiki fyrir Arsenal.

„Hann nýtur greinilega fótboltans og er að skora mörk. Þetta er búin að vera frábær byrjun hjá honum," sagði Silvestre. Robin van Persie hefur skorað 9 mörk í fyrstu 12 leikjum sínum með Manchester United í öllum keppnum.

„Það er áberandi að hann er ekki í neinum felum inn á vellinum. Hann tekur ábyrgð og er alltaf að biðja um boltann," sagði Silvestre ennfremur um Van Persie.

„Robin er undir sömu pressu og hann var hjá Arsenal. Hann er markaskorari og það búast allir við að hann skili sömu tölfræði og í fyrra. Ef hann heldur sér heilum þá hefur hann tækifæri til að ná upp frábæru samstarfi með Wayne Rooney. Van Persie kom til United til að vinna titla og Wayne er hungraður í fleiri titla. Það er ekki hægt að búa til betra sóknarpar," sagði Silvestre.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×