Enski boltinn

Safnar hári þar til hann skorar

Tom Huddlestone, leikmaður Tottenham, sagði í góðu tómi við vini sína að hann myndi ekki skerða hár sitt fyrr en hann skoraði næst. Sá brandari hefur heldur betur sprungið í andlitið á honum enda hefur leikmaðurinn ekki skorað í 19 mánuði.

Honum til vorkunnar verður að taka fram að hann hefur verið mikið meiddur. Hann stendur samt við loforðið og er meira að segja farinn að nýta hárið í að safna fé til krabbameinsrannsókna.

"Mér er alveg sama þó ég fái hár niður á mjaðmir ef við komumst aftur í Meistaradeildina," sagði Huddlestone en hann ætlar að standa við stóru orðin. Hann skoraði síðast í apríl á síðasta ári.

"Þetta byrjaði allt í léttu gríni með félögunum en ég mun ekki brotna heldur halda áfram að safna þar til ég skora. Svo ég stæði pottþétt við loforðið þá er hægt að heita á mig og ágóðinn rennur í krabbameinsrannsóknir. Sem betur fer hefur eitthvað af góðu fólki heitið á mig og 11 þúsund pund komin í kassann."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×