Enski boltinn

Neita dómararnir að dæma hjá Chelsea?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mark Clattenburg og John Obi Mikel.
Mark Clattenburg og John Obi Mikel. Mynd/Nordic Photos/Getty
Dómararnir í ensku úrvalsdeildinni íhuga nú að neita að dæma leiki hjá Chelsea til að þess að sýna Mark Clattenburg stuðning en Chelsea kvartaði undan dónaskap Clattenburg í leik Chelsea og Manchester United um síðustu helgi og sakaði hann um kynþáttafordóma gagnvart einum leikmanni liðsins.

Mark Clattenburg þarf nú að gagnast undir lögreglurannsókn í viðbót við rannsókn enska sambandsins vegna þess sem hann sagði við John Obi Mikel í leiknum á sunnudaginn var. Clattenburg hefur fullan stuðning dómarasamtakanna og Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, varði hann einnig á blaðamannafundi í gær.

„Ég hef verið í sambandi við fullt af strákum í dómarastéttinni og þeir sýna mjög sterkar tilfinningar vegna þeirrar stöðu sem Mark er kominn í," sagði Clive Wilkes, fyrrum dómari við The Sun.

„Ég þekki nokkra dómara sem eru meira að segja farnir að tala um að neita að dæma leiki hjá Chelsea vegna þessa máls. Það eru engar ýkjur að enskum dómurum hefur aldrei liðið verr. Þeir eru varnarlausir og finnst þeir fá engan stuðning," sagði Wilkes.

„Þeir þora samt ekki að tjá sig því þeir búast bara við því að vera reknir segir þeir frá raunum sínum. Þeir hafa verið að ræða verkfall en það verður aðeins möguleiki ef allt annað bregst," sagði Wilkes.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×