Enski boltinn

Chelsea hefndi ófaranna gegn United

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hazard fagnar jöfnunarmarki sínu í kvöld.
Hazard fagnar jöfnunarmarki sínu í kvöld. Nordic Photos / Getty Images
Chelsea er komið áfram í fjórðungsúrslit ensku deildabikarkeppninnar eftir 5-4 sigur á Manchester United í framlengdum leik.

Annað kvöldið í röð var boðið upp á líflegan leik í keppninni en Arsenal vann í gær ótrúlegan 7-5 sigur á Reading.

Dramatíkina vantaði ekki í kvöld. Manchester United var aðeins nokkrum sekúndum frá því að tryggja sér sigur í leiknum þegar að Scott Wooton, ungur leikmaður United, gerði sig sekan um klaufaleg mistök.

Hann braut á Brasilíumanninum Ramires í eigin vítateig. Eden Hazard tók spyrnuna og tryggði Chelsea framlengingu.

Daniel Sturridge kom svo Chelsea yfir í framlengingunni og Ramires bætti svo fimmta markinu við á 116. mínútu. Ryan Giggs minnkaði svo muninn úr vítaspyrnu á 119. mínútu en nær komust gestirnir frá Manchester ekki.

Manchester United komst þrívegis yfir í venjulegum leiktíma en ávallt náði Chelsea að jafna. Ryan Giggs, Javier Hernandez og Nani skoruðu fyrir United en þeir David Luiz (úr vítaspyrnu), Gary Cahill og áðurnefndur Eden Hazard fyrir Chelsea.

Þessi sömu lið mættust í ensku úrvalsdeildinni um helgina en þá vann United 3-2 sigur í dramatískum leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×