Enski boltinn

Eigandi QPR um Hughes: Með einn besta stjórann í deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mark Hughes, stjóri Queens Park Rangers.
Mark Hughes, stjóri Queens Park Rangers. Mynd/Nordic Photos/Getty
Tony Fernandes, eigandi Queens Park Rangers, gefur lítið fyrir þær sögusagnir í enskum fjölmiðlum að Mark Hughes verði rekinn frá QPR-liðinu vinni liðið ekki Reading í ensku úrvalsdeildinni um næstu helgi.

„Mark hefur minn stuðning sem og stuðning allra hluthafanna. Við þurfum bara smá heppni og að sleppa við meiðsli. Það er bara bull sem var skrifað í blöðin í morgun," sagði Tony Fernandes við BBC.

Queens Park Rangers er í neðsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar með aðeins 3 stig í húsi af 27 mögulegum þar af aðeins eitt stig út úr síðustu fimm leikjum sínum.

„Ég tel að við séum með einn besta stjórann í ensku úrvalsdeildinni. Við erum að hugsa fram í tímann og sama hvað gerist þá elskum við QPR," sagði Fernandes.

Queens Park Rangers fær Reading í heimsókn um næstu helgi en Reading-liðið situr líka í fallsæti en er með einu stigi meira en QPR.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×