Enski boltinn

Triesman: Af hverju fékk Terry styttra bann en Suarez?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
John Terry og Luis Suarez.
John Terry og Luis Suarez. Mynd/Nordic Photos/Getty
Lord Triesman, fyrrum stjórnarmaður í enska knattspyrnusambandinu, hefur gagnrýnt lengdina á banninu sem John Terry fékk fyrir kynþáttaníð gagnvart Anton Ferdinand og af hverju bann Terry var helmingi styttra en það sem Liverpool-maðurinn Luis Suarez fékk í fyrra.

Terry var dæmdur í fjögurra leikja bann og til að borga 220 þúsund pund í sekt en Suarez fékk minni sekt en tvöfalt lengra bann. Suarez var dæmdur fyrir kynþáttaníð gagnvart Patrice Evra hjá Manchester United.

„Ég get bara ekki skilið það af hverju John Terry fékk ekki sama bann og Liverpool-leikmaðurinn," sagði Lord Triesman við BBC.

„Það ætti að koma fram í niðurstöðunum í dómnum en ég sé það ekki þar," sagði Triesman og hann gagnrýndi það líka hversu illa gengur að útiloka kynþáttahatur frá fótboltanum. „Það hjálpar heldur ekki til þegar misræmis gætir í dómunum," sagði Triesman.

„Nú skiptir öllu máli að félögin geri sínum launaháu leikmönnum endanlega grein fyrir því til hvers sé ætlast af þeim í leikjum og á æfingum," sagði Triesman.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×