Enski boltinn

Rodgers ekki íhugað að ná í Carroll

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Carroll í leik með West Ham.
Carroll í leik með West Ham. Nordic Photos / Getty Images
Þrátt fyrir meiðsli Fabio Borini segist Brendan Rodgers, stjóri Liverpool, ekki hafa íhugað að kalla á Andy Carroll til baka frá West Ham þar sem hann er nú í láni.

Borini fótbrotnaði á dögunum og verður af þeim sökum frá næstu þrjá mánuðina. Luis Suarez er nú eini hreinræktaði framherjinn sem er eftir í leikmannahópi Rodgers.

Samkvæmt enskum fjölmiðlum á Rodgers þann möguleika að fá Carroll aftur til félagsins í janúar þó svo að lánssamningurinn gildi til loka tímabilsins.

„Ég hef í raun ekki íhugað það," sagði hann. „Andy fór til að fá að spila og við fylgjumst mjög vel með honum."

Rodgers á nokkra unga leikmenn sem hann gæti notað í fremstu víglínu en hann hefur verið óhræddur við að gefa yngri leikmönnum tækifæri til þessa.

„Það er ekki hægt að nota alla ungu leikmennina. Þetta er hörð deild og undir mér komið að hlúa vel að hæfileikum þeirra - ekki eyðileggja þá."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×