Enski boltinn

Di Matteo: Ekki öruggt að Terry fái aftur fyrirliðabandið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
John Terry.
John Terry. Mynd/Nordic Photos/Getty
Roberto Di Matteo, stjóri Chelsea, var ekki tilbúinn að lofa því að John Terry verði áfram fyrirliði Chelsea-liðsins þegar hann snýr aftur úr fjögurra leikja banni fyrir kynþáttaníð gagnvart Anton Ferdinand hjá QPR.Terry verður ekki með í næstu fjórum deildarleikjum Chelsea en fær að spila á móti Shakhtar Donetsk í Meistaradeildinni á þriðjudaginn.

„Við verðum bara að bíða og sjá til," svaraði Roberto Di Matteo þegar hann var spurður út í það hvort Terry myndi halda fyrirliðabandinu. Di Matteo var heldur ekki tilbúinn að gefa það upp hvernig félagið refsaði John Terry vegna þessa leiðinlega máls og sagði að slík mál væru afgreidd innan félagsins.

„Við metum það mikils að leikmaðurinn ákvað að áfrýja ekki banninu eða sektinni og við erum líka ánægðir með að hann hafi beðist opinberlega afsökunar. Hann er búinn að biðja alla afsökunar og þar á meðal Ferdinand-fjölskylduna," sagði Roberto Di Matteo.

Terry missir af leik á móti Tottenham á morgun, heimaleik á móti Manchetser United 28. október, deildarbikarleik á móti United þremur dögum síðar og loks útileik á móti Swansea 3. nóvember. Fyrsti leikur Terry eftir bannið verður á móti Liverpool 11. nóvember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×