Erlent

Eva Rausing sagðist vita hver myrti Olof Palme

Hin sterkefnaða Eva Rausing sem lést af ofstórum skammti eiturlyfja í júlí s.l. mun hafa bent á að sá sem stóð að baki morðinu á Olof Palme forsætisráðherra Svía árið 1986 hafi verið hingað til óþekktur sænskur athafnamaður.

Eva Rausing var eiginkona milljarðamæringsins Hans Kristian Rausing erfingja Tetra Pak auðæfanna. Andlát hennar vakti mikla athygli um allan heim í sumar.

Fjallað er um málið í Dagens Nyheder en þar kemur fram að Eva sagði í tölvupóstum til rithöfundarins Gunnars Wall sem hefur rannsakað morðið náið að athafnamaður þessi hafi ákveðið að myrða Palme. Ástæðan var að hann hélt að Palme ætlaði að standa fyrir löggjöf sem hefði komið verulega við kaunin á fyrirtækjarekstri sínum.

Eva sagðist hafa fengið þessar upplýsingar frá eiginmanni sínum. Þá kom einnig fram í tölvupóstunum að Eva óttaðist um líf sitt.

Þrátt fyrir að Eva Rausing sé ekki talin ábyggilegur heimildarmaður enda langt genginn fíkniefnasjúklingur þegar hún lést hefur sænska lögreglan ákveðið að rannsaka málið. Sú rannsókn verður á vegum svokallaðs Palme hóps innan sænsku lögreglunnar og hefur hópurinn ákveðið að kalla Hans Kristian í yfirheyrslur hjá sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×