Innlent

Fá að velja sér aðstoðarmenn sjálf

Hugrún J. Halldórsdóttir skrifar
Fötluðu fólki í Reykjavík og á Seltjarnarnesi gefst nú kostur á að taka þátt í tveggja ára tilraunarverkefni þar sem það fær greiðslur í stað þjónustu og getur þar með valið aðstoðarfólk sitt sjálft og ákveðið hvernig það nýtist.

Þetta er framtíðarsýn Reykjavíkurborgar og kjarninn í sérstöku þróunar- og tilraunaverkefni um notendastýrða persónulega aðstoð þar sem fötluðum er boðið upp á val um þjónustu. Björk Vilhelmsdóttir, formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar gerir ráð fyrir að verkefnið verði lögbundið frá árinu 2014.

„Þá fellur niður sú þjónusta sem fólk hefur í dag samkvæmt lögum um málefni fatlaðs fólks og lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga og fólk fær í stað fjármagn og ráðstafar því að eigin ósk til aðstoðarfólks sem það sjálft stýrir. Þetta hefur verið ósk fatlaðra til langs tíma."

Á vef Reykjavíkurborgar hefur þegar verið auglýst eftir þátttakendum en umsóknarfrestur er til og með 10.september. Engin takmörk eru á fjölda þátttakenda að sögn Bjarkar. Gert er ráð fyrir tveggja ára samkomulagi á milli umsækjandans og borgarinnar um stuðningsþörfina og verða greiðslur í samræmi við það.

„Þetta geta orðið bæði minni samningar og eins fólk sem þarf sólarhrings þjónustu til að fá aðstoð í sínu lífi. Það mun fá heilmiklar greiðslur en þetta er kannski þjónusta sem margir þekkja í dag í gegnum bíómyndina Intouchables sem tugir þúsunda Íslendinga hafa sem betur fer séð. Og það er svona dæmi um notendastýrða persónulega aðstoð og ég vona að við fáum einhver sólskinsdæmi í Reykjavík eins og sú mynd sýnir," segir Björk Vilhelmsdóttir, formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×