Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: ÍA - Breiðablik 1-1

Stefán Hirst Friðriksson á Akranesvelli skrifar
Mynd/Pjetur
ÍA og Breiðablik gerðu jafntefli eftir dramatískar lokamínútur á Akranesvelli í kvöld. Bæði mörkin komu á síðustu mínútum leiksins.

Leikurinn var afar rólegur fram að því en Árni Vilhjálmsson virtist hafa tryggt Blikum sigur með marki á 87. mínútu. En Jóhannes Karl Guðjónsson jafnaði metin fyrir heimamenn er hann skoraði úr víti sem var dæmt eftir að brotið var á Andra Adolphssyni.

Leikurinn fór hægt af stað í tiltölulega slæmu veðri á Skipskaga og áttu liðin í erfiðleikum að byggja upp spil á upphafsmínútunum.

Heimamenn fengu þó dauðafæri um miðbik hálfleiksins þegar Andri Adolphsson átti frábæran sprett framhjá vörn Blika en skot hans var vel varið af Ingvari Kale í marki Breiðabliks.

Fátt annað markvert gerðist í döprum fyrri hálfleik og staðan því markalaus í hálfleik.

Síðari hálfleikurinn var eins leiðinlegur og sá fyrri en þó áttu bæði lið ágætis tækifæri til þess að komast yfir í leiknum en tókst ekki.

Dramatíkin var þó gríðarleg í lok leiks en Breiðablik komst yfir á 87. mínútu með frábæru marki frá Árna Vilhjálmssyni. Hann fór þá auðveldlega framhjá vörn heimamanna og hamraði boltanum í nærhornið.

Heimamenn fengu svo vítaspyrnu þegar komið var langt inn í uppbótartíma en brotið var á Andra Adolphssyni vítaspyrnan umsvifalaust dæmd.

Jóhannes Karl Guðjónsson sýndi fádæma öryggi á punktinum og jafnaði leikinn fyrir sína menn.

Furðulegt atvik átti sér svo stað undir lok leiks en Sverrir Ingi Ingason, leikmaður Breiðabliks var þá vikið af velli.  Hann fékk þá sitt seinna gula spjald í leiknum, í kjölfarið af jöfnunarmarki Skagamanna.

Liðin höfðu ekki tíma til þess að ná sigurmarkinu því að dómari leiksins flautaði leikinn af í kjölfarið og jafntefli því staðreynd.

Þórður: Áttum að vera búnir að gera út um leikinn

„Ég er sáttur við stigið miðað við leikurinn þróaðist í restina. Við áttum þó að vera búnir að gera út um leikinn á þeim tímapunkti sem Breiðablik skorar en mér fannst við stjórna leiknum fram að því marki," sagði Þórður.„Við fáum tvö til þrjú mjög góð færi í seinni hálfleiknum til þess að klára leikinn en það gekk ekki. Á góðum degi erum við búnir að klára þessa leiki en svona er þetta," bætti Þórður við.

Sóknarleikur liðsins var á köflum nokkuð dapur og saknaði liðið augljóslega Gary Martin, sem gekk til liðs við KR á dögunum. Þórður hafði þetta um málið að segja.

„Við erum að skoða hlutina en við tökum engan leikmann nema að hann sé betri en það sem við höfum. Mér fannst Garðar standa sig vel í dag og mér fannst sóknarleikurinn bara allt í lagi í dag. Við vorum að finna hann vel í lappir og okkur gekk vel út á köntunum þannig að ég var bara nokkuð sáttur við sóknarleikinn í dag," sagði Þórður Þórðarsson, þjálfari ÍA, í leikslok.Ólafur: Helvíti grátlegt

„Þetta var helvíti grátlegt að ná ekki að klára þetta eftir að hafa náð opnunarmarkinu svona seint í leiknum. Þetta eru tvö stig töpuð hjá okkur í kvöld," sagði Ólafur.

„Mér fannst jafnteflið ekki sanngjörn úrslit. Við vorum að svara öllum aðgerðum Skagamanna virkilega vel og var þetta nokkuð þægilegt að mínu mati. Eftir að við komust forystu undir lokin með mjög góðu marki áttum við að klára þetta en þetta var ægileg dramatík í lok leiks," bætti Ólafur við.

Það vakti athygli að sóknarmaðurinn Petar Rnkovic var ekki í leikmannahóp liðsins í kvöld. Aðspurður um hvort að liðið væri að skoða leikmenn til þess að bæta við sagði Ólafur.

„Það er nóg búið að vera að gerast á félagsskiptaglugganum og hef ég ekkert um það að segja. Við erum með þá leikmenn sem við höfum og hvort að við ætlum okkur að bæta eitthvað við okkur verður bara að koma í ljós," sagði Ólafur.

„Það eru fleiri sem voru ekki í hóp. Hann verður á æfingu á morgun en hann var ekki valinn í hóp liðsins fyrir leikinn í kvöld," sagði Ólafur Kristjánsson, þjálfari Breiðabliks, eftir leik.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×