Enski boltinn

Wenger: Þú getur eytt peningum en samt verið með lélegt lið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arsene Wenger, stjóri Arsenal.
Arsene Wenger, stjóri Arsenal. Mynd/Nordic Photos/Getty
Arsene Wenger, stjóri Arsenal, reyndi að vera jákvæður þrátt fyrir 0-2 tap fyrir Liverpool í dag og að liðið hans sé ekki enn búið að skora á nýju tímabili í ensku úrvalsdeildinni þrátt fyrir að hafa spilað í 180 mínútur.

„Það vantaði átta leikmenn í liðið og liðið stóð sig samt vel. Þetta er ekki eins svart hjá okkur og menn vilja mála það," sagði Arsene Wenger.

„Við þurfum að búa við þær kringumstæður að hverju tapi okkar er líkt við náttúruhamfarir og það talið vera algjör skömm fyrir liðið. Við erum vonsviknir með að hafa tapað þessum leik en tímabilið er bara nýbyrjað," sagði Wenger en hann var enn á ný spurður út í hvort hann ætlaði ekki að kaupa leikmenn.

„Mitt markmið er að búa til gott lið og að eiga góða leikmenn. Þú getur eytt peningum en samt verið með lélegt lið," sagði Wenger.

„Við viljum að stuðningsmennirnir séu ánægðir og ef þú vinnur ekki leik þá er skiljanlegt að þeir séu ekki ánægðir. Nú er mikilvægast að rífa upp leikmennina því þeir eru mjög vonsviknir eftir þetta tap," sagði Wenger.

„Það er vel hægt að hrósa þeim fyrir hugarfarið og frammistöðuna í dag en það var mjög ósanngjarnt að tapa þessum leik eins og við gerðum í dag," sagði Wenger.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×