Íslenski boltinn

Tómas bíður eftir símtali frá Fram

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Tómas Leifsson í leik með Fram.
Tómas Leifsson í leik með Fram. Mynd/Valli
Tómas Leifsson er samningslaus en hann hefur verið á mála hjá Fram undanfarin tvö ár. Hann vill ræða við Fram áður en hann skoðar aðra möguleika.

Tómas gat ekkert spilað síðari hluta tímabilsins í sumar vegna hnémeiðsla en hann verður frá æfingum fram að áramótum.

Talið er að Ásmundur Arnarsson, nýráðinn þjálfari Fylkis, vilji fá Tómas til félagsins og sagði Tómas við Vísi að hann vissi af áhuga Fylkismanna.

„Þorvaldur [Örlygsson, þjálfari Fram] hefur sagt mér að hann vilji halda mér hjá Fram og ég ætla fyrst að ræða við Framara áður en ég velti einhverju öðru fyrir mér,“ sagði Tómas í samtali við Vísi í gær.

„En ég á enn eftir að heyra frá stjórninni og því hefur lítið verið að gerast í þessum málum hjá mér,“ bætti hann við.

Tómas er 26 ára gamall og er uppalinn FH-ingur. Hann lék þá með Fjölni í fjögur ár en alls á hann að baki 123 leiki í deild og bikar með Fjölni, FH og Fram. Alls skoraði hann 35 mörk í þessum leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×