Íslenski boltinn

Finnur gerði þriggja ára samning við Fylki

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Finnur Ólafsson í leik með ÍBV.
Finnur Ólafsson í leik með ÍBV. Mynd/Anton
Miðjumaðurinn Finnur Ólafsson gekk í dag til liðs við Fylki í Pepsi-deildinni frá ÍBV. Gerði hann þriggja ára samning við félagið.

Ásmundur Arnarsson tók við þjálfun Fylkis eftir tímabilið og vildi styrkja miðjuna hjá liðinu.

„Það fór mikið af miðsvæðinu í sumar og við lögðum því mikla áherslu á að fá Finn. Við erum gríðarlega ánægðir með að þetta hafi gengið í gegn," sagði Ásmundur í samtali við Vísi.

Finnur hefur verið hjá ÍBV undanfarin tvö ár eftir að hafa komið frá uppeldisfélagi sínu, HK. Hann átti enn eitt ár eftir af samningi sínum við Eyjamenn og þurfti því Fylkir að kaupa upp samninginn.

„Það er kannski ekki endilega á mínum snærum að svara því hvernig það kom til en hluti af ástæðunni er að leikmaðurinn var að hugsa sér til hreyfings upp á land af persónulegum ástæðum," sagði Ásmundur.

Ásmundur hefur verið duglegur að fá leikmenn til Fylkis að undanförnu en fyrir voru þeir Björgólfur Takefusa, Árni Freyr Guðnason og Magnús Þórir Matthíasson búnir að semja við félagið.

„Mér líst mjög vel hópinn. Það er mikið af ungum og efnilegum strákum að koma upp og ég er ánægður með þá leikmenn sem við höfum fengið. En við misstum líka marga leikmenn og því hefur leikmannahópurinn breyst nokkuð mikið. Það gæti tekið tíma að púsla þessu öllu saman."

Ásmundur sagði að félagið væri svo sem ekki með fleiri leikmenn í sigtinu eins og er, en þó væru 2-3 samningslausir leikmenn að æfa með liðinu þessa dagana. Einn þeirra er Kári Ársælsson, varnarmaður og fyrrum fyrirliði Breiðabliks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×