Íslenski boltinn

Guðmundur Reynir á leið í Harvard

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Guðmundur er ekki bara góður í fótbolta heldur er hann einnig afburðanámsmaður og lipur tónlistarmaður.fréttablaðið/stefán
Guðmundur er ekki bara góður í fótbolta heldur er hann einnig afburðanámsmaður og lipur tónlistarmaður.fréttablaðið/stefán
Einn besti leikmaður Íslandsmótsins síðasta sumar, KR-ingurinn Guðmundur Reynir Gunnarsson, er að öllum líkindum á leið til Bandaríkjanna eftir áramót þar sem hann hefur komist inn í skiptinám í hinum heimsfræga Harvard-háskóla.

„Þetta er alveg gríðarlega spennandi tækifæri fyrir mig og ég er ánægður með að hafa komist inn,“ segir Guðmundur Reynir, en hann fer utan í janúar og kemur ekki aftur fyrr en í maí.

Hann mun því missa af undirbúningstímabilinu með KR og koma til landsins þegar mótið er að byrja. Hann segir það ekki vera vandamál af hálfu KR að hann fái að fara.

„Ég setti það í samninginn minn að ég gæti farið ef slíkt tækifæri kæmi upp. Það eru því engin leiðindi eða vandræði með þessa tilhögun,“ segir Guðmundur, sem er ekki bara öflugur í bakverðinum heldur einnig í náminu, en hann var eitt sinn í landsliðinu í stærðfræði.

Hann mun læra hagfræði þann tíma sem hann verður í Harvard. „Ég mun síðan reyna að spila og halda mér í formi úti svo ég verði í þokkalegu standi fyrir KR þegar ég kem heim.“

Aðeins eitt getur komið í veg fyrir að Guðmundur fari ekki í Harvard, en það er ef hann fær freistandi tilboð frá erlendu félagi.

„Atvinnumennskan er það eina sem getur stöðvað mig. Hlutirnir varðandi atvinnumennsku verða þó að gerast hratt, fyrir lok vikunnar,“ segir bakvörðurinn, en er það í kortunum að hann komist í atvinnumennsku?

„Það eru viðræður við félag í Skandinavíu en ekki miklar líkur á að eitthvað verði úr því.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×