Íslenski boltinn

Jóhannes: Ég hef enn engin svör fengið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jóhannes Valgeirsson er meðal reyndustu knattspyrnudómara landsins og vill komast aftur út á völlinn til að dæma.fréttablaðið/xxx
Jóhannes Valgeirsson er meðal reyndustu knattspyrnudómara landsins og vill komast aftur út á völlinn til að dæma.fréttablaðið/xxx
Jóhannes Valgeirsson hefur ekki dæmt leik á vegum Knattspyrnusambands Íslands á þessu ári. Hann frétti það í fjölmiðlum í mars á þessu ári að hann hefði verið tekinn af dómaralista KSÍ. Hann segist ekki vita hvaða ástæður liggi þar að baki.

„Ég hef hringt í marga sem til þekkja og hafa ákvörðunarvald í þessum efnum. En ég fæ einfaldlega engin svör,“ sagði Jóhannes í samtali við Fréttablaðið í gær.

Mál Jóhannesar er flókið og forsagan löng. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hann hefur sagt sína sögu en í vor ákvað hann að geyma málið í þeirri von að öldurnar lægði. Þó án árangurs.

Tekinn úr dómarateymi Kristins„Eitthvað hefur gerst einhvern tímann sem ég get ekki nema getið mér til um. Ég hef heyrt ýmsar sögur og ein þeirra er að meðlimir dómaranefndar KSÍ hafi hótað því að hætta verði ég aftur tekinn inn,“ segir Jóhannes.

Hann segir að fyrsta skrefið í málinu hafi líklega verið þegar hann var tekinn úr FIFA-dómarateymi Kristins Jakobssonar í febrúar síðastliðnum. Hann hafi skipst á við Erlend Eiríksson að vera fjórði dómari í teyminu en eftir að hann hafi verið settur úr hópnum tvo leiki í röð hafi hann reiðst.

„Ég vildi fá svör við því. En þeir neituðu að svara – það eina sem ég fékk að vita var að dómaranefnd gæfi ekki upplýsingar um einstakar ákvarðanir sem væru teknar. Ég var brjálaður á þessum tíma.“

Hvort þetta hafi orðið til þess að Jóhannes hafi verið settur af lista dómara hjá KSÍ hefur Jóhannes ekki fengið staðfest. Fréttablaðið reyndi að leita viðbragða hjá Gylfa Þór Orrasyni, formanni dómaranefndar KSÍ, og Þóri Hákonarsyni, framkvæmdarstjóra sambandsins. Þórir vísaði á Gylfa Þór en ekki náðist í hann í síma í gær.

Uppsögn í körfuboltasalGylfi Þór sagði í samtali við Fótbolti.net þann 14. mars síðastliðinn að Jóhannes hafi hætt í samtali við dómaranefndarmann KSÍ á dómaraæfingu á Akureyri. Þá uppsögn hafi hann svo staðfest þegar starfsmaður KSÍ hafði samband við hann.

Jóhannes staðfestir að það hafi fokið í hann í íþróttasal á Akureyri. Þá hafi hann velt þeim möguleika upp að stíga til hliðar og hætta dómgæslu.

„Ég sagði þá við meðlim dómaranefndar KSÍ sem var á sömu æfingu að ef ég þyrfti að standa í baráttu við nefndina út af þessu máli þá færi maður að velta því fyrir sér að hætta,“ segir Jóhannes. Birkir Sveinsson, mótastjóri KSÍ, hringdi svo í hann stuttu síðar og úr því samtali á að hafa komið sú niðurstaða að Jóhannes væri hættur dómgæslu.

Það vill Jóhannes sjálfur alls ekki kvitta undir. „Ég sagði honum aldrei að ég væri hættur. Hann var þá að raða dómurum á leiki í Lengjubikarnum og ég sagði við hann að á meðan ég fengi engin svör við því af hverju ég hafði verið tekinn úr dómarateymi Kristins þá væri ekki ástæða til þess að setja mig á leiki. En ég lagði ekki fram uppsögn enda myndi ég gera það skriflega og þá við æðstu menn KSÍ.“

Spurður hvort að hann hefði séð eftir því að hafa ekki tekið að sér að dæma í Lengjubikarnum játti hann því.

„Auðvitað átti ég bara að bíta í tunguna og dæma fótbolta. En ég var fúll og sár. Það var mikið áfall fyrir mig að þurfa að standa í þessum átökum.“

Mitt líf og yndiJóhannes fór á fund fulltrúa dómaranefndar KSÍ síðastliðinn vetur.

„Þar fékk ég að vita að dómaranefnd KSÍ hafi þegar tekið ákvörðun að ég myndi ekki dæma meira og að það yrði ekki rætt frekar,“ rifjar Jóhannes upp. Hann segist enn vera reiðubúinn að leita sátta og að Gylfi Þór hafi sagt við sig að hann yrði að biðjast afsökunar. „Hann sagði mér að ég þyrfti að biðja stjórn KSÍ, dómaranefnd og alla dómara landsins afsökunar. Það væri ekki vandamál af minni hálfu að biðjast afsökunar ef ég hefði hlaupið á mig. En ég þarf þá líka að fá að vita á hverju ég á að biðjast afsökunar.“

Hann segist aldrei hafa nefnt það að hætta dómgæslu, nema á téðri dómaraæfingu á Akureyri. Aldrei í tengslum við önnur mál. „Ég hef aldrei hótað því að hætta. Þetta starf var líf mitt og yndi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×