Íslenski boltinn

Erum ekki að yfirspenna bogann í Árbænum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Finnur Ólafsson í baráttu við Andrés Má Jóhannesson, leikmann Fylkis, í leik í Pepsi-deildinni.
Finnur Ólafsson í baráttu við Andrés Má Jóhannesson, leikmann Fylkis, í leik í Pepsi-deildinni. Mynd/Anton
Finnur Ólafsson gekk í gær í raðir Fylkis frá ÍBV og samdi við Árbæinga til næstu þriggja ára. Finnur ákvað að fara frá ÍBV þar sem hann þurfti að flytja til Reykjavíkur af fjölskylduástæðum.

„Eyjamenn sýndu því mjög mikinn skilning og voru jákvæðir gagnvart því að vinna með mér í þessu máli. Það er ástæðan fyrir því að ég er genginn í raðir Fylkis,“ sagði Finnur við Fréttablaðið.

Finnur er fjórði leikmaðurinn sem Fylkir fær til sín eftir tímabilið en félagið hefur líka misst fimm leikmenn. Þórður Gíslason, formaður meistaraflokksráðs karla hjá Fylki, segir að kaupin á Finni fari því ekki illa með fjárhagsáætlanir félagsins.

„Alls ekki. Við misstum nokkra menn í sumar og því þurftum við að fylla í þeirra skörð. Það var því svigrúm fyrir Finn í okkar áætlunum,“ segir Þórður.

Finnur átti eitt ár eftir af samningi sínum við ÍBV og þurfti því Fylkir að greiða fyrir hans komu til félagsins. „Við þurftum að greiða aðeins meira en stuðullinn segir til um en í stóra samhenginu töldum við þetta innan þeirra marka sem við höfum sett okkur.“

Samkvæmt afreksstuðlakerfi KSÍ er Finnur með stuðulinn 3 og því hefur lágmarksfélagsgjald verið 300 þúsund krónur fyrir hann. Þórður vildi þó ekki gefa upp hversu mikið Fylkir hefði greitt fyrir kappann.

Hann sagði annars rekstur knattspyrnudeildarinnar ganga ágætlega og að allir leikmenn væru búnir að fá laun sín greidd.

„Okkur hefur gengið illa að greiða niður skuldir frá árunum 2007 til 2008 en að öðru leyti hefur reksturinn verið á áætlun og ekki útlit fyrir annað en að svo verði einnig á næsta ári,“ segir Þórður og segir að leikmenn hafi haft skilning á því ef launagreiðslur hafi tafist.

„Svona mál hafa alltaf verið rædd af yfirvegun og gengið vel að greiða úr þeim. Staðan í dag er sú að allir leikmenn hafa fengið laun sín greidd.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×