Íslenski boltinn

KR hefur ekki verið í þessari stöðu í átta ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Viktor Bjarki hefur átt þátt í marki í öllum þremur leikjum KR til þessa.fréttablaðið/vilhelm
Viktor Bjarki hefur átt þátt í marki í öllum þremur leikjum KR til þessa.fréttablaðið/vilhelm
Knattspyrnuspekingum hefur verið tíðrætt um það í vor hversu slæm byrjun KR-ingar hafi spillt fyrir þeim síðustu sumur og þeir hafi því ekki náð í Íslandsmeistaratitilinn þrátt fyrir sannkallaða meistaraspilamensku á lokasprettinum.

Það að KR-ingar skuli vera á toppnum eftir þrjár umferðir í Pepsi-deildinni í ár ætti að auka meistaravonir fjölmargra stuðningsmanna félagsins. Það hefur nefnilega ekki gerst í átta ár, eða síðan KR-ingar urðu síðast Íslandsmeistarar sumarið 2003. KR-ingar voru sem dæmi í 9. sæti eftir þrjár umferðir í fyrra og fyrir fjórum árum voru þeir á botninum eftir þrjá leiki. Þeir hafa í raun aðeins verið tvisvar sinnum á topp þrjú eftir þrjár umferðir frá því að þeir unnu síðasta titilinn fyrir átta árum.

KR-ingar eru samt með jafnmörg stig og fyrir tveimur árum en þeir græða á því að aðalkeppinautar þeirra, FH, Valur og Breiðablik, hafa öll tapað fleiri stigum í fyrstu þremur umferðunum. Þess vegna er toppsætið Vesturbæinga þrátt fyrir naumt jafntefli við Keflavík í eina heimaleik liðsins til þessa.

Fram undan eru reyndar varasamar umferðir fyrir KR-liðið því liðið hefur tapað samtals sextán stigum (af 30 mögulegum) í fjórða til áttunda leik undanfarin tvö tímabil og sá kafli á ekki síður þátt í því að góður endasprettur hefur ekki dugað til að koma með Íslandsbikarinn aftur í Vesturbæinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×