Íslenski boltinn

Matthías: Set mikla pressu á sjálfan mig

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Matthías átti magnaðan leik gegn Keflavík og skoraði eitt af mörkum ársins.fréttablaðið/vilhelm
Matthías átti magnaðan leik gegn Keflavík og skoraði eitt af mörkum ársins.fréttablaðið/vilhelm
„Það var grátlegt að þetta mark skyldi ekki duga til sigurs. Enda lamdi ég fast í jörðina þegar þeir jöfnuðu,“ sagði Matthías Vilhjálmsson, fyrirliði FH, sem taldi sig hafa tryggt FH sigur í Keflavík er hann skoraði glæsilegt mark úr aukaspyrnu af um þrjátíu metra færi.

Gamla brýnið Grétar Ólafur Hjartarson sá aftur á móti til þess að FH fór aðeins með eitt stig í Hafnarfjörðinn er hann jafnaði leikinn fyrir heimamenn í uppbótartíma.

„Við vorum að vonast til þess að byrja mótið aftur. Við erum þó með fjögur stig og það er jafn mikið og eftir fjórar umferðir í fyrra. Ef við vinnum næsta leik er byrjunin betri en fyrir ári. Þetta er því ekki alslæmt en þetta gæti verið betra,“ sagði Matthías, en FH er búið að vinna einn leik, gera eitt jafntefli og tapa einum leik. Liðið er þó aðeins þrem stigum á eftir toppliði KR.

„Það hefur ýmislegt vantað upp á hjá okkur. Við þurfum að taka betri ákvarðanir á síðasta þriðjungi vallarins og nýta færin okkar betur. Svo er svolítið einbeitingarleysi hjá okkur í föstum leikatriðum. Mér finnst við hreinlega hafa verið klaufar í þessum leikjum þar sem við höfum misst stig. Við klárum ekki færin okkar og þá er okkur refsað. Þessu verður að breyta.“

FH-ingum var spáð titlinum fyrir tímabilið enda liðið ákaflega vel mannað og hópurinn breiður. Matthías segir að menn finni ekkert sérstaklega fyrir pressunni enda ætli FH sér alltaf stóra hluti.

„Pressan hefur engin áhrif á okkur. Þetta hefur alltaf verið svona síðan ég byrjaði í meistaraflokki. Pressan ætti frekar að kalla á að menn væru enn einbeittari en ella,“ sagði Matthías, sem var ekki ánægður með fyrstu tvo leikina hjá sér í mótinu.

„Það eru margir góðir leikmenn í FH og reyndir. Við hjálpumst allir að en ég set alltaf mjög mikla pressu á sjálfan mig. Fyrstu tveir leikirnir voru vonbrigði hjá mér persónulega en mér leið mun betur í Keflavík. Ég vona að með hækkandi sól verði ég enn betri.“

Matthías fór utan til Englands í vetur þar sem hann var í láni hjá enska C-deildarliðinu Colchester. Dvölin þar var styttri en áætlað var enda fékk Matthías lítið sem ekkert að spreyta sig hjá félaginu.

„Dvölin þar gerði mér samt mjög gott og ég lærði heilmikið sem ég get nýtt mér. Það var gott að fá smjörþefinn af atvinnumennskunni því nú veit ég betur hvað þarf til ef ég ætla að komast í atvinnumennsku. Ég bað um að koma heim fyrr þar sem mig vantaði leikæfingu. Ég vildi koma heim og spila þó svo að æfingarnar úti hefðu verið ágætar. Það var nauðsynlegt að fá leiki í Lengjubikarnum svo ég yrði klár fyrir sumarið,“ sagði Matthías.

Þó svo að FH-vélin hafi hikstað örlítið í fyrstu leikjunum segir Matthías engar líkur vera á því að leikmenn liðsins fari á taugum.

„Við erum alveg rólegir. Við þurfum ekkert að panikka fyrr en í svona 20. umferð ef staðan verður slæm þá,“ sagði Matthías léttur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×