Erlent

Fólk hamstrar vatn úr búðum í Tókýó

Biðjast afsökunar Yfirmenn kjarnorkuversins í Fukushima hneigðu sig djúpt að japönskum sið þegar þeir heimsóttu fólk sem þurfti að rýma íbúðir sínar vegna geislavirkni.
fréttablaðið/AP
Biðjast afsökunar Yfirmenn kjarnorkuversins í Fukushima hneigðu sig djúpt að japönskum sið þegar þeir heimsóttu fólk sem þurfti að rýma íbúðir sínar vegna geislavirkni. fréttablaðið/AP
„Ég hef aldrei séð annað eins,“ sagði Toru Kikutaka, verslunarmaður í Tókýó, þar sem verslunarhillur með vatnsflöskum tæmdust nánast á augabragði eftir að borgarstjórinn sagði geislamengun hafa mælst í kranavatni borgarinnar.

Geislavirknin í vatninu er það mikil að ekki er óhætt að gefa það ungbörnum. Hins vegar er hún ekki svo mikil að eldri börn og fullorðið fólk geti ekki drukkið það sér að skaðlausu.

Geislamengunin hefur þegar haft áhrif á efnahagslíf Japans. Stjórnvöld í Hong Kong skýrðu í gær frá því að öllum innflutningi á matvælum frá fimm héruðum Japans, sem harðast urðu úti, verði hætt.

Bandaríkin hafa sömuleiðis hætt innflutningi á sumum vörutegundum.

Tala látinna vegna hamfaranna í Japan hefur hækkað jafnt og þétt nánast daglega undanfarið.

Lögreglan í Japan hafði í gær fengið staðfestar upplýsingar um nærri 9.500 dauðsföll af völdum hamfaranna í landinu. Að auki var nærri sextán þúsund manns saknað.

Reikna má með að þessar tölur skarist eitthvað því erfiðlega hefur gengið að bera kennsl á margar þeirra líkamsleifa sem fundist hafa.

Kjarnorkuslysið í Fukushima hefur strax haft nokkur áhrif á framtíð kjarnorkunýtingar á Vesturlöndum. Ítalir hafa frestað um eitt ár öllum áformum um að hefja á ný rekstur kjarnorkuvera, en þeir lögðu alla slíka starfsemi niður fyrir tuttugu árum vegna jarðskjálftahættu.

Þá hefur þýska stjórnin lýst því yfir að áformum um að leggja niður öll kjarnorkuver í landinu verði nú hraðað mjög, en áður hafði verið tekin ákvörðun um að leggja þau niður smám saman á næstu 25 árum.- gb



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×