Íslenski boltinn

Umfjöllun: Grindvík fjarlægist fallsætið

Guðmundur Marinó Ingvarsson á Nettó-vellinum skrifar
Það verður án efa hart barist í grannaslag Keflavíkur og Grindavíkur.
Það verður án efa hart barist í grannaslag Keflavíkur og Grindavíkur. Mynd/Anton
Grindavík vann dramatískan sigur á nágrönum sínum í Keflavík í kvöld, 2-1, með marki mínútu fyrir leikslok. Keflavík situr eftir með sárt ennið þrátt fyrir töluverða yfirburði úti á vellinum í seinni hálfleik en Grindavík skoraði úr eina skoti sínu í hálfleiknum.

Fyrri hálfleikur var bráð fjörugur og hefðu bæði lið getað skorað mun meira en sitt hvort markið sem liðin skoruðu. Grindavík var beinskeyttara framan af leik og komst yfir með góðu marki Orra Freys en Guðmundur Steinarsson sem nú er leikjahæsti leikmaður Keflavíkur jafnaði metinn með marki beint úr aukaspyrnu frá hægri kanti þar sem flestir bjuggust við fyrirgjöf og varð um leið markahæsti leikmaður Keflavíkur frá upphafi því þetta var hans 73. mark í 214 leikjum.

Guðmundur og félagar hans fengu bestu færi seinni hálfleiks enda mikið meira með boltann en Grindavík nýtti eina færi sitt í hálfleiknum og uppskar því stigin þrjú og átta stigu forskot á Fram og Víking í fallsætum deildarinnar. Grindavík náði auk þess Íslandsmeisturum Breiðabliks að stigum.

Það er ekki spurt að því hvernig leikurinn spilaðist, Keflavík er enn með 17 stig, stigi meira en Grindavík og ef Fram og Víkingur fara að sækja sigra er ljóst að fallbaráttan getur orðið æsileg og það með liðum sem hafa siglt lygnan sjó í sumar en tapað mörgum stigum upp á síðkastið. Staða botnliðanna tveggja er þó þannig að ólíklegt er að þau nái að stríða Keflavík, Breiðabliki og Grindavík úr þessu.

Keflavík-Grindavík 1-2

0-1 Orri Freyr Hjaltalín (19.)

1-1 Guðmundur Steinarsson (27.)

1-2 Óli Baldur Bjarnason (89.)

Dómari: Þóroddur Hjaltalín (6)

Skot (á mark): 11-5 (6-3)

Varið: Ómar 1 – Óskar 5

Hornspyrnur: 1-1

Aukaspyrnur fengnar: 12-9

Rangstöður: 1-6




Fleiri fréttir

Sjá meira


×