Enski boltinn

Taarabt yfirgaf Craven Cottage í hálfleik - hljóp frá stuðningsmönnum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Adel Taarabt í leik með QPR.
Adel Taarabt í leik með QPR. Nordic Photos / Getty Images
Adel Taarabt er búinn að koma sér í vandræði hjá félagi sínu, QPR, sem og stuðningsmönnum þess eftir að hann yfirgaf Craven Cottage, heimavöll Fulham, áður en leik liðanna lauk í gær. Fyrir utan völlinn varð hann svo að hlaupa í burtu frá stuðningsmönnum félagsins sem höfðu gefið sig á tal við hann.

Taarabt var skipt af velli í hálfleik en þá var staðan orðin 3-0 fyrir Fulham sem vann að lokum leikinn, 6-0. Fullyrt er í enska götublaðinu Daily Mail að Taarabt hafi skellt sér í sturtu, klætt sig í æfingagalla merktan QPR og svo stormað í burtu.

Fyrir utan leikvanginn, rétt hjá strætisvagnastöð á Fulham Palace Road, báru nokkrir stuðningsmenn QPR kennsl á hann og gáfu sig á tal við hann. Taarabt mun hafa leyft nokkrum ungum stuðningsmönnum að láta taka myndir af sér með honum.

En síðan snerust nokkrir stuðningsmenn gegn honum og ákvað Taarabt því að hlaupa einfaldlega í burtu.

Þess má geta að Taarabt hætti að spila með landsliði Marokkó eftir að hann fór í fússi frá liðinu í júní síðastliðnum en hann var markahæsti leikmaður QPR á síðasta tímabili er liðið tryggði sér sæti í ensku úrvalsdeildinni.

Ef frásögn Daily Mail reynist rétt er ljóst að Taarabt má eiga von á þungri sekt en Neil Warnock, stjóri QPR, vildi ekki tjá sig um málið eftir leik í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×