Erlent

Hetjan með handtöskuna lét ræningja fá það óþvegið

Eldri kona á Bretlandi hefur vakið gríðarlega athygli fyrir vasklega framgöngu en hún lét til skarar skríða gegn ræningjagengi sem var að ræna skartgripaverslun á dögunum.

Sex menn á mótorhjólum, vopnaðir sleggjum, brutu rúður í skartgripaverslun í miðbæ Northampton um hábjartan dag. Margir vegfarendur urðu vitni að ráninu en enginn hreyfði legg né lið. Enginn nema gamla konan sem sést á mynbandi sem tekið var af vegfaranda ráðast til atlögu gegn ræningjunum. Hún barði þá sundur og saman með handtöskunni sinni og þegar þeir reyndu að flýja duttu tveir þeirra af mótorhjóli sínu.

Konan beið ekki boðanna heldur barði þá dálítið meira með töskunni. Aðrir vegfarendur ákváðu þá loksins að slást í lið með konunni og þegar lögreglan kom á vettvang héldu þau einum ræningjanum föngnum. Hinir sluppu en lögreglan hefur nú handtekið tvo í viðbót og leitar hinna.

Smellið á meðfylgjandi myndband til þess að sjá hetjuna með handtöskuna.








Tengdar fréttir

Hetjan með handtöskuna: „Það gerði enginn neitt svo ég lamdi þá bara“

Ellilífeyrisþeginn sem lét til skarar skríða gegn skartgriparæningjum í gær hefur vakið verðskuldaða athygli í breskum miðlum í dag. Vísir greindi frá því fyrr í dag hvernig konan réðst gegn sex skartgriparæningjum með handtöskuna eina að vopni, en þeir voru vopnaðir sleggjum sem þeir notuðu til að mölva rúðurnar í versluninni. Hún náði að trufla þá við iðju sína og tefja þá nógu lengi þannig að lögreglan handsamaði einn á staðnum. Tveir aðrir voru handteknir síðar og hinna er leitað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×