Haft er eftir Geir Þorsteinssyni, formanni KSÍ, að hann sé mjög vongóður um að Lars Lagerbäck verði næsti landsliðsþjálfari Íslands.
„Hann hefur lýst yfir áhuga sínum á starfinu og ég er afar vongóður,“ sagði Geir í samtali við sænska vefinn fotballskanalen.se.
„Við eigum í viðræðum. Við höfum áhuga og hann hefur áhuga. Það er jákvætt. Ég tel að við getum gefið út hver taki við landsliðinu eftir um tvær vikur.“
„Ég vil ekki segja hvað við erum að ræða við marga aðila en við erum með nokkur nöfn á okkar lista.“
Geir vildi ekki segja hvort að KSÍ hefði mestan áhuga á að ráða Lagerbäck af þeim sem koma til greina. „Ég get sagt að við höfum mikinn áhuga á Lasse. Ég er afar vongóður.“
Geir vongóður um ráðningu Lagerbäck
Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
