Enski boltinn

119 ára saga St. James' Park á enda - heitir nú Sports Direct Arena

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
St. James' Park - nú Sports Direct Arena.
St. James' Park - nú Sports Direct Arena. Nordic Photos / Getty Images
Stuðningsmenn Newcastle eru margir afar ósáttir við eigandann Mike Ashley sem tilkynnti í gær að heimavöllur félagsins fengi nýtt nafn.

Völlurinn heitir nú Sports Direct Arena eftir fyrirtæki Ashley. Félagið segir að um tímabundna ráðstöfun sé að ræða en að nafn vallarins sé nú til sölu.

Derek Llambias, framkvæmdarstjóri Newcastle, segir að ef hægt verði að fá einn stóran styrktaraðila fyrir bæði treyju félagsins og nafnarétt heimavallarins geti það mögulega aflað félaginu tekjur upp á 10 milljónir punda ár hvert.

Newcastle er nú í þriðja sæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir frábært gengi í upphafi tímabilsins. „Við þurfum að gera enn betur og þessi peningur gæti gert okkur kleift að kaupa fleiri leikmenn.“

„Stuðningsmennirnir vilja fá fleiri leikmenn. Við þurfum að fá annan sóknarmann í janúar og fleiri til viðbótar í sumar.“

Þetta er ekki einsdæmi í Englandi. Heimavellir Arsenal og Manchester City bera báðir nafn aðalstyrktaraðila félaganna, sem og Brighton í ensku B-deildinni. Þá hafa forráðamenn Chelsea einnig hug á að endurskíra heimavöll sinn, Stamford Bridge.

„Sagan breytist ekkert og verður alltaf til staðar,“ bætti Llambias við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×