Enski boltinn

Manchester City vill meira en eitt stig á Old Trafford

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Sergio Agüero og Roberto Mancini fara yfir málin.
Sergio Agüero og Roberto Mancini fara yfir málin. Nordic Photos / Getty Images
Það er sannkallaður stórleikur á dagskránni í enska boltanum á morgun þegar Manchester-liðin, United og City, mætast á Old Trafford í uppgjöri efstu liða úrvalsdeildarinnar.

City komst í toppsæti deildarinnar um síðustu helgi á kostnað nágranna sinna sem ætla sér toppsætið á nýjan leik. Þessi tvö lið hafa verið áberandi sterkust í upphafi leiktíðar og baráttan um Manchester-borg er nú orðin miklu meira en nágrannaslagur. Nú er þetta orðinn lykilleikur í baráttunni um meistaratitilinn.

Menn hafa beðið eftir því að City færi að veita United keppni um titilinn eftir að félagið fór að eyða ótrúlegum upphæðum í nýja leikmenn.

Hinn ítalski stjóri Man. City, Roberto Mancini, segist bera mikla virðingu fyrir kollega sínum, Sir Alex Ferguson, sem hann lítur á sem kennara.

„Ég ber gríðarlega virðingu fyrir honum og því sem hann hefur gert á síðustu 25 árum. Hann er kennari fyrir okkur hina og ég reyni að læra af honum eins og aðrir,“ sagði Mancini.

„Þó svo að hann sé orðinn 69 ára er hann enn fullur af orku og vill ekkert annað en vinna. Hann er okkur ungu stjórunum mikil fyrirmynd. Vonandi get ég unnið af slíkum krafti á hans aldri en það verður ekki auðvelt.“

Síðan Mancini tók við City árið 2009 hefur honum ekki enn tekist að vinna United í deildarleik.

„Við höfum bætt okkur mjög mikið á einu ári og við verðum að halda þeirri vinnu áfram. Vissulega væri gott að fara frá Old Trafford með eitt stig en við viljum meira, rétt eins og United.“

Sir Alex segir að sínir menn séu klárir í slaginn. „Þetta gæti orðið rosalegur leikur og ég get ekki beðið. Við elskum svona áskoranir. Þessir leikur sker ekki úr um tímabilið en hann gæti haft áhrif á lokaniðurstöðuna og framhaldið hjá liðunum,“ sagði Ferguson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×