Ólafur Jóhannesson, landsliðsþjálfari Íslands, verður í sviðsljósinu í kvöld þegar íslenska liðið mætir Ungverjum í vináttulandsleik í Búdapest.
Hans Steinar Bjarnason, íþróttafréttamaður á Stöð 2, spurði Ólaf í kvöldfréttunum í gær út í umræðuna sem er í gangi um það hver taki við landsliðinu af honum.
„Mér finnst þessi umræða mjög vitlaus," sagði Ólafur og hann vildi ekki gefa upp hvort hann sækist eftir því að vera áfram með liðið.
„Ég hef svarað því áður að ég kem til með að klára þann samning sem ég er með við sambandið og svo verður það mál skoðað í framhaldinu," sagði Ólafur sem stjórnar íslenska landsliðinu í 35. sinn í kvöld.
