Enski boltinn

Rooney um Scholes: Sá besti sem ég hef spilað með eða á móti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Paul Scholes og Wayne Rooney.
Paul Scholes og Wayne Rooney. Mynd/Nordic Photos/Getty
Wayne Rooney segir að Paul Scholes sé besti leikmaðurinn sem hann hefur spilað með og á móti á sínum ferli en Scholes lagði skóna á hilluna í dag eftir magnaðan feril. Rooney og Scholes hafa spilað saman frá því að United keypti Wayne árið 2004 en þá var Scholes búinn að spila í United-liðinu í tíu ár.

„Við munum sakna hans mjög mikið. Ég frétti þetta bara fyrst í morgun," sagði Wayne Rooney í útvarpsviðtali við talkSPORT.

„Hann skilur eftir skarð í okkar liði því hann er besti leikmaður sem ég hef spilað með eða á móti," sagði Rooney.

„Ég bjóst við að hann myndi taka ákvörðun en bjóst ekki við henni svona fljótt. Við erum allir leiðir yfir því að hann þurfi að hætta að spila. Hann er búinn að vera frábær fyrir bæði United og enska landsliðið," sagði Rooney.

„Hann hefur ekki byrjað marga leiki að undanförnu og það hefur örugglega haft sín áhrif á hann," segir Rooney.

„Hann er ekki hár í loftinu en það er ekkert smá erfitt að ná af honum boltanum. Allir stuðningsmenn United munu sakna hans líka," sagði Rooney að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×