Enski boltinn

Giggs getur bætt enn eitt metið í dag

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Giggs í leiknum gegn Chelsea um síðustu helgi.
Giggs í leiknum gegn Chelsea um síðustu helgi. Nordic Photos / Getty Images
Ryan Giggs, leikmaður Manchester United, verður leikjahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar ef hann kemur við sögu í leiknum gegn Blackburn í dag.

Giggs á að baki 572 leiki í ensku úrvalsdeildinni, rétt eins og markvörðurinn David James. Þeir hafa deilt metinu síðan að Giggs spilaði með United gegn Chelsea um síðustu helgi.

Hinn 37 ára gamli Giggs lagði upp síðasta mark United í leiknum en það var hans áttunda stoðsending í deildarleik á tímabilinu.

Óhætt er að segja að Giggs sé einn allra besti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar frá upphafi og er hann handhafi fjöldra meta til að bera vitni um það.

Giggs er eini leikmaðurinn sem hefur skorað á hverju einasta tímabili síðan að enska úrvalsdeildin var stofnuð árið 1992. Tímabilin eru því orðin nítján talsins.

Hann er leikjahæsti leikmaður Manchester United frá upphafi, fyrsti leikmaður félagsins til að skora meira en 100 mörk í ensku úrvalsdeildinni og unnið samtals ellefu meistaratitla - sem er vitanlega met hjá leikmanni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×